Fjölskyldugerðir

Fjölskyldugerðir á Íslandi geta verið margskonar og eru þær allar eðlilegur hluti af íslensku samfélagi.

Fjölskyldugerðir geta verið:

  • Kjarnafjölskylda samanstendur af barni eða börnum og kynforeldrum barnsins eða barnanna.
  • Einstætt foreldri, einstæð móðir eða faðir, kallast það þegar maður eða kona býr eitt með barni sínu eða börnum.
  • Stjúpfjölskyldur samanstanda af barni eða börnum, kynforeldri og stjúpforeldri/sambúðarforeldri sem tekur þá að sér foreldrahlutverkið. Oft eiga bæði kynforeldrið og stjúpforeldrið börn í sitt hvoru lagi og þá eignast börnin stjúpsystkini. Þegar foreldrarnir eignast svo börn saman getur fjölskyldumyndin orðið ansi fjölbreytileg.
  • Í fósturfjölskyldum taka foreldrar að sér börn til lengri eða skemmri tíma sem þau eiga ekki.
  • Kjörfjölskyldur eru fjölskyldur þar sem barn eða börn hafa verið ættleidd.
  • Á Íslandi gilda ein hjúskaparlög og gilda þau jafnt um karl og konur, tvær konur og tvo karla. Það þýðir að allir einstaklingar sem gefnir eru saman falla undir ein og sömu hjúskaparlögin og er prestum og forstöðumönnum skráðra trúfélaga heimilt að gefa saman einstaklinga af sama kyni.
  • Samkynhneigðir í hjónabandi eða staðfestri samvist mega ættleiða börn og eignast börn með tæknifrjóvgun, að uppfylltum þeim skilyrðum sem gilda um ættleiðingar barna, og hafa sama rétt og aðrir foreldrar ef þau eiga börn fyrir.

Ofbeldi innan fjölskyldunnar, eins og í þjóðfélaginu almennt, er stranglega bannað. Ekki má beita maka sinn eða börn ofbeldi, hvorki andlegu né líkamlegu. Hægt er að kæra ofbeldi innan heimilisins til lögreglunnar og ef um ofbeldi gangvart börnum á sér stað á að kæra það til Barnaverndarstofu eða lögreglunnar.

Til baka, Senda grein, Prenta greinina