Skilnaður

Báðir aðilar hjónabands geta fengið skilnað, hvort sem maki þeirra vill það eða ekki. Oftast er byrjað á því að gefa leyfi til skilnaðar að borði og sæng en lögskilnað eftir eitt ár. Þó er hægt að fá leyfi til lögskilnaðar eftir sex mánuði ef báðir aðilar eru sammála um að sækja um lögskilnað þá.

Ef maki verður uppvís af framhjáhaldi, eða hann hefur beitt maka sinn, eða börn sem búa á heimilinu, líkamlegu ofbeldi eða kynferðisofbeldi er hægt að sækja um lögskilnað strax.

Ferlið

a)      Sáttavottorð

Ef hjón fara með forsjá barns undir 18 ára aldri þarf að leita sátta. Prestur eða forstöðumaður löggilts trúfélags gefur út sáttavottorð ef hjón tilheyra þjóðkirkjunni eða sama trúfélagi. Ef hjón eru í sitthvoru trúfélaginu, eða annað þeirra, eða bæði, eru ekki í trúfélagi er leitað sátta hjá sýslumanni eða dómara, eftir því hvar skilnaðarmálið er til meðferðar. Sáttavottorð mega ekki vera eldri en sex mánaða þegar sótt er um skilnað.

Ef hjón eiga ekki börn, eða ef börnin eru eldri en 18 ára, þarf ekki sáttavottorð. Í sáttavottorði kemur fram að prestur, forstöðumaður eða sýslumaður hafi reynt að sætta hjón en ekki tekist.

b)      Skilnaðarleyfi gefið út af sýslumanni

Sótt er um skilnað hjá sýslumanni í því umdæmi sem viðkomandi býr. Hjón verða að gera skriflegt samkomulag um skiptingu eigna og skulda svo sýslumaður geti gefið út leyfi til skilnaðar.

Samkvæmt lögum skiptast eignir jafnt á milli hjóna við skilnað, nema séreignir (til dæmis vegna kaupmála). Hvort um sig ber ábyrgð á eigin skuldum. Ef skuldir eru sameiginlegar, til dæmis yfirdráttur á sameiginlegum bankareikningi, skuld á sameiginlegu greiðslukorti, eða annað, tekur hvort á sig helming skuldar.

Ef hjón eiga saman barn undir 18 ára aldri þarf að liggja fyrir samkomulag um forsjá svo sýslumaður geti gefið út leyfi til skilnaðar að borði og sæng. Ef ekki næst samkomulag um forsjá barns / barna þarf að leggja fram staðfestingu á því að annað hvort hjóna hafi höfðað forsjármál fyrir dómi áður en sýslumaður getur gefið út áðurnefnt leyfi. Sjá nánari upplýsingar á www.syslumenn.is

c)      Skilnaður fyrir dómi

Ef annað hjóna mætir ekki til sýslumanns, eða neitar að skilja, þarf að ganga frá málinu fyrir dómstólum. Þá er æskilegt að hjón ráði til sín lögmann, sitt í hvoru lagi, þó þeim sé heimilt að flytja málið sjálf fyrir dómstólum.

Ef gengið er frá skilnaði fyrir dómstólum þarf að liggja fyrir eignaskiptasamningur eða úrskurður héraðsdóms um opinber skipti á búinu (eignum)[1]. Þá sér skiptastjóri um skiptingu eigna og skulda, ákvörðun um lífeyri og svo framvegis. Til að ganga megi frá skilnaði fyrir dómi þarf að liggja fyrir að búið (eignir) hafi verið tekið til opinberra skipta.

Ef ekki liggur fyrir samkomulag um forsjá barna má reka skilnaðarmálið og forsjámálið sameiginlega.

Sjá einnig upplýsingar um:

  • Forsjá
  • Gjafsókn
  • Umgengnisrétt

Sjá bæklinginn: Réttur þinn - Mikilvægar upplýsingar fyrir erlendar konur á Íslandi[1] Opinber skipti þýðir að dómari ákveður að skiptaráðandi skipti búi, til dæmis við skilnað.

Til baka, Senda grein, Prenta greinina