Kærunefnd útlendingamála tekur til starfa

12.1.2015 Fréttir

Kærunefnd útlendingamála hefur tekið til starfa en nefndin er sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem sett var á fót í kjölfar breytinga síðastliðið vor á lögum um útlendinga nr. 96/2002. Felst lagabreytingin í því að almenn kæruleið vegna ákvarðana um útlendingamál hefur verið færð frá innanríkisráðherra til hinnar nýju kærunefndar og hefur hún sömu valdheimildir og ráðherra til að úrskurða í kærumálum.

Nefndin hefur aðsetur í húsnæði stjórnarráðsins við Skuggasund í Reykjavík og er símanúmer hennar 545 8800 og netfang postur@knu.is.

Hjörtur Bragi Sverrisson, framkvæmdastjóri mannréttindadeildar ÖSE í Kosovo, hefur verið skipaður formaður úrskurðarnefndarinnar og samkvæmt lögunum skal hann hafa starfið að aðalstarfi. Auk hans starfa hjá nefndinni fjórir lögfræðingar og ritari.

Markmiðið með skipan kærunefndar er meðal annars að mæta gagnrýni á það fyrirkomulag sem ríkt hefur að innanríkisráðuneytið endurskoði ákvarðanir Útlendingastofnunar.

Sjá nánar á vef Innanríkisráðuneytisins

Senda grein