Við fæðumst fordómalaus-hvað svo?

8.1.2016 Fréttir

Innflytjendaráð í samstarfi við velferðarráðuneytið hefur hleypt af stokkunum átaksverkefninu „Við fæðumst fordómalaus - hvað svo?“ Verkefninu er ætlað að skapa umræðu um þá fordóma sem við fullorðna fólkið ölum gjarnan með okkur og hvetja okkur til að sjá hlutina með augum barna. Því þótt börnin læri svo sannarlega það sem fyrir þeim er haft - og mest af okkur fullorðna fólkinu - getum við vel lært ýmislegt af þeim. T.d. einstaklega jákvætt, einfalt og rökrétt viðhorf gagnvart innflytjendum og flóttamönnum.

Til að freista þess að fanga þetta viðhorf fékk innflytjendaráð auglýsingastofuna Árnasyni, í samstarfi við framleiðslufyrirtækið Tjarnargötuna og Ævar Vísindamann, til að taka stutt viðtöl við nokkur íslensk börn og biðja þau um að svara örfáum spurningum tengdum fordómum. Börnin sýndu fádæma fordómaleysi þegar þau svöruðu vandalaust spurningum eins og „Veist þú hvað innflytjendur eru?“ sem eitt barnið svaraði svo fallega: „Ég held það sé vinátta.“

Svarið er ef til vill hæpin orðabókarskilgreining en væri ekki samfélagi okkar hollt að styðjast engu að síður við það nú þegar innflytjendum fjölgar á ný hérlendis og samfélagið er að undirbúa sig undir að taka á móti hópum flóttafólks.

Hægt er að lesa fréttina í heild sinni á vef velferðarráðuneytisins

Verkefnið á facebook

Senda grein