Ný útlendingalög samþykkt á Alþingi

3.6.2016 Fréttir

Ný lög um útlendinga voru samþykkt á Alþingi í gær en Ólöf Nordal innanríkisráðherra mælti fyrir frumvarpinu 20. apríl síðastliðinn. Fram fór viðamikil endurskoðun fyrri laga sem voru frá árinu 2002 og er frumvarpið sem lagt var fram afurð um tveggja ára vinnu þverpólítískrar þingmannanefndar sem skipuð var af þáverandi innanríkisráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, vorið 2014 til að endurskoða lögin.

Markmiðið með endurskoðun útlendingalaga var að koma til móts við þarfir samfélagsins sem og einstaklinga og tryggja að mannúð, jöfnuður og skilvirkni ríki við meðferð stjórnvalda í málefnum útlendinga hér á landi. Meðal nýmæla frumvarpsins er að meiri samræming verði á milli laga um útlendinga og laga um atvinnumál útlendinga, dvalarleyfaflokkum er breytt, skilyrði dvalarleyfa einfölduð og kaflar um alþjóðlega vernd hafa verið endurskoðaðir og uppfærðir í samræmi við alþjóðlega, evrópska og norræna þróun. Áður hafði verið lagt fram frumvarp í janúar 2013 sem ekki hlaut afgreiðslu en var samið í kjölfar skýrslu nefndar sem þáverandi innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, skipaði um málefni útlendinga.

Víðtækt samstarf og samráð

Með því að skipa þverpólitíska nefnd til að endurskoða lögin var stuðlað að samstarfi milli þingmanna, embættismanna og fræðimanna og komu fjölmargir aðilar, stofnanir og samtök að verkinu. Auk þess var góð samvinna við fulltrúa Útlendingastofnunar, Vinnumálastofnunar og velferðarráðuneytisins. Þá hélt nefndin nokkra samráðsfundi með ýmsum hagsmunaðilum auk þess sem leitað var ráðgjafar fjölmargra sérfræðinga á mörgum sviðum. Frumvarpið var síðan kynnt á opnum fundi í ágúst 2015 og í framhaldi af því afhent ráðherra laust fyrir áramót.

Á Alþingi fór frumvarpið í ítarlega umfjöllun hjá allsherjar- og menntamálanefnd eftir fyrstu umræðu og nefndin sendi umsagnarbeiðni til fjölmargra aðila sem tengjast málefnum útlendinga, m.a. lögreglu og sýslumönnum, flóttamannanefnd, lögmönnum, Persónuvernd, samtökunum No Borders, sveitarfélögum, barnaverndarnefndum og félagsmálayfirvöldum svo nokkrir aðilar séu nefndir. Frumvarpið var síðan samþykkt síðdegis í gær og voru gerðar á því nokkrar breytingar að tillögu þingnefndarinnar.

Í greinargerð frumvarpsins segir um tilefni og nauðsyn lagasetningar að erlendir ríkisborgarar hafi í síauknum mæli óskað eftir því að setjast að á Íslandi sem sé í takt við aukna fólksflutninga í heiminum. Hafi nágrannaríki brugðist við þessari þróun og breytt löggjöf sinni í svipaða veru og hér er gert meðal annars til að einfalda umsóknar- og afgreiðsluferli, hraða málsmeðferð og skýra ýmsa óvissuþætti, m.a. til að tryggja að löggjöfin sé betur í stakk búin til að takast á við aukinn fjölda umsækjenda. Öll nágrannaríki Íslands hafa þurft að takast á við mikla aukningu umsókna um alþjóðlega vernd og er Ísland ekki undanskilið í þeirri þróun.

Sjá umfjöllun um frumvarpið á

vef Alþingis
Senda grein