15 verkefni fengu styrk úr þróunarsjóði innflytjenda

31.5.2017 Fréttir

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, úthlutaði í gær 14,2 milljónum króna í styrki úr þróunarsjóði innflytjenda. Þetta er í tíunda sinn sem úthlutað er úr sjóðnum frá stofnun hans árið 2007. Frá þeim tíma hafa styrkir verið veittir  til meira en 110 þróunarverkefna og rannsókna.

Tilgangur sjóðsins er að efla rannsóknir og þróunarverkefni á sviði innflytjendamála með það að markmiði að auðvelda gagnkvæma aðlögun innflytjenda og íslensks samfélags. Að þessu sinni var sérstök áhersla lögð á rannsóknar- og þróunarverkefni sem leggja áherslu á þau samfélagslegu áhrif sem fólk af erlendum uppruna hefur á íslenskt samfélag, falla vel að áherslum þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2016-2019 eða stuðla að virkri þátttöku innflytjenda í samfélaginu og auka sýnileika þeirra, en fleiri verkefni komu einnig til álita.

Alls bárust 40 umsóknir í sjóðinn til margvíslegra verkefna og hlutu fimmtán verkefni styrk.

Nánar má lesa um styrkveitinguna á heimasíðu velferðarráðuneytisins

Senda grein