Grunnskilyrði dvalarleyfis (FS - utan)

Trygg framfærsla

Umsækjandi verður að geta sýnt fram á trygga framfærslu og er þá átt við eitthvað af eftirfarandi:

  • Atvinnutekjur eða fastar reglubundnar greiðslur.
  • Eigið fé (til dæmis inni á bankareikningi).
  • Greiðslur frá öðrum nánum fjölskyldumeðlimi (ef umsækjandi er barn undir 18 ára eða foreldri 67 ára og eldri).

Ef framfærsla er í formi atvinnutekna eða fastra reglubundinna greiðslna þarf að framvísa ráðningarsamningi, launaseðlum eða vottorði frá vinnuveitenda um starfshlutfall og ráðningartíma.

Ef um er að ræða eigið fé, sem umsækjandi notar til framfærslu, þá þarf það að vera í gjaldmiðli sem skráður er hjá Seðlabanka Íslands (www.sedlabanki.is). Sama gildir um námslán eða námsstyrki vegna námsmanna.

Upplýsingar um viðmið vegna lágmarksframfærslu eru að finna á vef Útlendingastofnunar. Sjá hér

  • Greiðslur í formi félagslegrar aðstoðar frá ríki eða sveitarfélagi teljast ekki trygg framfærsla.

Tryggt húsnæði

Með tryggu húsnæði er átt við að umsækjandi geti sýnt fram á að hann megi dvelja í húsnæði, sem skráð er sem íbúðarhúsnæði í fasteignaskrá, með samþykki þinglýsts eiganda. Þinglýstur eigandi húsnæðisins þarf að skrifa undir eyðublað sem staðfestir þetta.

Sjúkratrygging

Umsækjandi þarf að kaupa sjúkratryggingu sem kallast sjúkrakostnaðartrygging hjá vátryggingafélagi sem er með starfsleyfi á Íslandi. Tryggingin þarf að gilda í minnst sex mánuði frá skráningu lögheimilis eða þar til viðkomandi er búinn að ávinna sér rétt til að vera sjúkratryggður á Íslandi (nánari upplýsingar veita vátryggingafélögin; http://www.vordur.is, www.tm.is, www.vis.is, www.sjova.is ).

Börn og unglingar, yngri en 18 ára, eru sjúkratryggð með foreldrum sínum eða forsjármönnum. Sama gildir um kjörbörn, stjúpbörn og fósturbörn.

Þeir sem ekki eru sjúkratryggðir þurfa að greiða hærra gjald fyrir heilbrigðisþjónustu. Upplýsingar um sjúkratryggingar og fleira eru að finna á vefsíðu Tryggingastofnunar ríkisins (www.tr.is) og á vefsíðu Sjúkratrygginga Íslands (www.sjukra.is).

Fylgigögn og vottorð

Útlendingastofnun og fleiri stofnanir gera þær kröfur að öllum erlendum vottorðum, sem eru á öðrum tungumálum en ensku eða Norðurlandamáli (dönsku, norsku, sænsku eða finnsku), fylgi þýðing sem unnin er af löggiltum skjalaþýðanda.

Upplýsingar um löggilta skjalaþýðendur á Íslandi eru að finna á vefsíðu Félags dómtúlka og skjalaþýðenda (www.flds.is).

Áður en sótt er um dvalarleyfi á Íslandi þarf að útvega ýmis vottorð og gögn sem þurfa að fylgja með umsókninni. Það fer eftir tilgangi dvalar og tegundum leyfa hvaða fylgigagna er óskað. Upplýsingar um hvaða fylgigögn þurfa að fylgja í hverju tilviki eru á vefsíðu Útlendingastofnunar (www.utl.is).

Ef ástæða þykir til áskilur Útlendingastofnun sér rétt til að óska eftir staðfestingu á lögmæti erlendra vottorða. Um er að ræða annað hvort „apostille“-vottun frá heimaríki umsækjanda eða tvöfalda staðfestingu frá utanríkisráðuneyti í heimaríki og sendiráði viðkomandi ríkis á Íslandi eða næsta sendiráði (hafi viðkomandi ríki ekki sendiráð á Íslandi).

Nánari upplýsingar um apostille-vottun er að finna á vefsíðu HCCH. Sjá hér

Þau gögn (ef við á) sem nauðsynlegt er að skila í frumriti eru:

  • Sakavottorð.
  • Hjúskaparvottorð.
  • Fæðingarvottorð.
  • Forsjárgögn, skilnaðar- eða dánargögn.
  • Staðfesting á sambúð eða samvist.
  • Mikilvægt er að gildistími vegabréfs sé að minnsta kosti þrír mánuðir fram yfir áætlaðan dvalartíma.

Kennitala

Kennitalan er tíu stafa tala sem er eins konar lykill að íslensku samfélagi.

Umsókn um kennitölu og beiðni um skráningu lögheimilis er hluti af umsókn um dvalarleyfi. Útlendingastofnun sér um að sækja um kennitölu fyrir einstaklinga sem þurfa dvalarleyfi eða dvalarleyfisskírteini á Íslandi.

Til baka, Senda grein, Prenta greinina