Eftir komu til landsins (FS - utan)

Læknisrannsókn

Í mörgum tilvikum þarf umsækjandi að undirgangast læknisrannsókn og skila læknisvottorði til Útlendingastofnunar. Þeir sem leggja fram erlent læknisvottorð yngra en þriggja mánaða, sem metið er fullnægjandi að mati læknis á Íslandi, þurfa ekki að fara í læknisskoðun hér á landi.

Íbúar frá EES-ríkjum (annarra en Rúmeníu og Búlgaríu), Sviss, Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu og Nýja-Sjálandi þurfa hvorki að framvísa læknisvottorði né undirgangast læknisrannsókn. Nánari upplýsingar eru á vef Fjölmenningarseturs (www.mcc.is/heilsa/laeknisskodun).

Myndataka

Útlendingur þarf að mæta í myndatöku sem fer fram hjá Útlendingastofnun eða næsta sýslumannsembætti. Sýna þarf vegabréf. Myndataka á að fara fram um leið og útlendingur er kominn og eigi síðar en þegar læknisrannsókn hefur farið fram.

Dvalarleyfiskort

Dvalarleyfiskort er gefið út um leið og læknisvottorð hefur borist Útlendingastofnun og myndataka hefur farið fram. Dvalarleyfiskortið er staðfesting á lögmætri dvöl rétthafa þess. Upphaf dvalar miðast við útgáfudag kortsins.

Dvalarskírteini

Ríkisborgari utan EES- eða EFTA-ríkis sem er aðstandandi EES- eða EFTA-ríkisborgara sækir um dvalarskírteini hjá Útlendingastofnun. Við umsókn þarf hann meðal annars að leggja fram vegabréf, staðfestingu á fjölskyldutengslum, fara í myndatöku hjá Útlendingastofnun og gæti auk þess þurft að fara í læknisrannsókn (www.mcc.is/heilsa/laeknisskodun).

Þegar aðstandandi ríkisborgara EES- eða EFTA-ríkis uppfyllir öll nauðsynleg skilyrði er gefið út dvalarskírteini sem sent er á dvalarstað umsækjanda, og verður það heimilisfang um leið lögheimili hans. Upphaf dvalar miðast við útgáfudag skírteinisins.

Flutningur lögheimilis innanlands

Ef flytja þarf lögheimili milli staða á Íslandi þarf að fylla út eyðublaðið „Flutningstilkynning innanlands og frá Íslandi“. Nota þarf íslykil eða rafræn skilríki. Samkvæmt lögum skal tlkynna flutninginn innan viku frá flutningi til Þjóðskrár Íslands eða á skrifstofu viðkomandi sveitarfélags.

Upplýsingar um flutning á vef Þjóðskrár Íslands

Til baka, Senda grein, Prenta greinina