Landið og íbúar

Landið og íbúar þess

 • Ísland er næststærsta eyja í Evrópu. Hún liggur í Norður-Atlantshafi.
 • Eyjan er 103.000 ferkílómetrar að stærð og þar eru um 200 eldfjöll af ýmsum gerðum.
 • Um 75% landsins eru í meira en 200 metra hæð og stór hluti er gróðurlítil háslétta með stöku fjöllum og fjallgörðum.
 • Jöklar þekja samtals um 11.900 ferkílómetra en ræktað land aðeins 1.400 ferkílómetra. Gróið land þekur 23.805 ferkílómetra.
 • Í byrjun árs 2017 voru rúmlega 338.000 íbúar á Íslandi
 • Í byrjun 17. aldar bjuggu rúmlega 50.000 einstaklingar á Íslandi og dreifðist mannfjöldinn mun víðar um landið en í dag.
 • Í ársbyrjun 2010 var hlutfall innflytjenda af heildarmannfjölda á Íslandi 6,8%. Það gerir rúmlega 21.700 einstaklinga sem skráðir voru á Íslandi með erlent ríkisfang.
 • Árið 1950 var fjöldi erlendra ríkisborgara á Íslandi tæplega 2.700 af 141.000 íbúum landsins eða 2% af heildarmannfjölda.

Veðrátta

 • Sjávarhiti sunnanlands og við sunnanvert Vesturland er um 10°C á sumrin en 5°C á veturna. Norðan- og austanlands er sjávarhitinn um 5°C á sumrin en um 1° C á veturna. Vegna nokkuð stöðugs sjávarhita verður ekki mikill munur á lofthita á veturna og sumrin.
 • Meðalárshiti í Reykjavík er um 5° C.
 • Meðalhitinn í janúar er -0,4° C og í júlí 11,2° C.
 • Lægsta hitastig á landinu á 20. öld mældist -37° C í janúar 1918 á Grímsstöðum.
 • Hæsta hitastig sem mældist á 20. öld voru rúmlega 30° C árið 1939.
 • Mjög oft rignir, einkum á sunnanverðu landinu, en sjaldan lengi í einu.
 • Oft er mjög vindasamt og rigning og snjór falla sjaldan beint niður heldur koma lárétt, eða eins og vindurinn blæs.
 • Vindurinn getur magnað kuldaáhrifin því að -5° C frost í miklum vindi getur virkað eins og -20° C til -30° C í logni.
 • Helsta einkenni veðráttunnar er hversu breytileg hún er.

Þessar upplýsingar og aðrar tölfræðilegar upplýsingar um Ísland má finna á vef Hagstofu Íslands.

Til baka, Senda grein, Prenta greinina