Lög og reglur

  • Samkvæmt íslensku stjórnarskránni skulu allir vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.
  • Íslenska lögreglan er ríkislögregla og er innanríkisráðherra yfirmaður allrar löggæslu í landinu. Dómstigin eru tvö, héraðsdómstólar og hæstiréttur.
  • Lög og reglur eru ekki nákvæmlega eins í neinu ríki og því er mikilvægt að kynna sér lög í nýju landi. Upplýsingavefurinn www.island.is inniheldur viðamiklar upplýsingar á íslensku og ensku, á vef Alþingis (www.althingi.is) má finna íslenska lagasafnið og á vef Stjórnarráðsins má finna lög og reglugerðir sem þýddar hafa verið yfir á ensku (www.stjornarrad.is / www.government.is).
  • Á Íslandi gilda sérstök lög er varða réttindi barna. Öllum ber skylda til að láta vita í síma 112 ef grunur leikur á að börn séu beitt líkamlegu, andlegu eða kynferðislegu ofbeldi.  
  • Sjálfræðisaldur er 18 ár á Íslandi. Þá fær einstaklingur lögræði, það er fjárræði og sjálfræði, ásamt því að hann öðlast kosningarrétt. Bílpróf er hægt að taka daginn sem einstaklingur verður 17 ára en leyfi til að kaupa áfengi miðast við 20 ár.
  • Allir sem eru 18 ára og eldri mega ganga í hjúskap og skrá sig í sambúð[1], einnig einstaklingar af sama kyni. Hægt er að fá skilnað þótt makinn vilji það ekki. Við skilnað er eignum og skuldum venjulega skipt til helminga á milli hjóna nema samningur hafi verið gerður um annað.
  • Samkvæmt lögum er forsjá yfir börnum sameiginleg við skilnað og sambúðarslit nema annað sé ákveðið. Foreldrar þurfa að ákveða hjá hvoru þeirra barn skuli eiga lögheimili og þar með hafa, að jafnaði, fasta búsetu. Sýslumaður getur úrskurðað um ágreining varðandi umgengnisrétt en ef ágreiningur er um forsjá þarf að vísa honum til dómstóla. Ef foreldri sem fer eitt með forsjá gengur í hjúskap þá er forsjá barns einnig hjá stjúpforeldrinu. Taki það aftur á móti upp sambúð verður forsjáin einnig hjá sambúðarforeldrinu eftir að sambúðin hefur verið skráð samfleytt í eitt ár í þjóðskrá.
  • Hraðakstur og akstur undir áhrifum áfengis er litinn alvarlegum augum og eru refsingar háar fjársektir, ökuleyfissvipting og varðhald við ítrekuð brot. Sektir geta einnig haft áhrif á veitingu íslensks ríkisborgararéttar.

[1] Þegar fólk er í sambúð þá býr það saman; ef fólk er í skráðri sambúð býr það saman eins og hjón og nýtur ákveðinna réttinda, til dæmis í sambandi við skatta, þó það sé ekki gift. Hægt er skrá sambúð sína hjá Þjóðskrá Íslands á þar til gerðu eyðublaði.

Til baka, Senda grein, Prenta greinina