Skattar - yfirlit

 • Allir sem vinna á Íslandi eru skattskyldir.
 • Skattur af tekjum einstaklinga skiptist í tekjuskatt til ríkisins annars vegar og útsvar sem rennur til sveitarfélags hins vegar.
 • Tekjuskattur er þrepaskiptur og fer skatthlutfallið eftir tekjum launþega. Á vefsíðu Ríkisskattstjóra (www.rsk.is) er að finna upplýsingar um staðgreiðslu skatta miðað við upphæð tekna.
 • Greiddir skattar koma fram á launaseðli. Nauðsynlegt er að varðveita launaseðla til að sanna að skattar hafi verið greiddir.

Skattafsláttur / persónuafsláttur

 • Atvinnurekandi tekur staðgreiðslu af launum starfsmanns en starfsmaðurinn á rétt á fastri upphæð í skattafslátt (persónuafslátt) í hverjum mánuði. Almennur persónuafsláttur er föst upphæð sem allir launþegar fá í skattafslátt og dregst frá skattgreiðslum launþega.
 •  Persónuafslætti má safna upp á milli mánaða.
 • Uppsafnaður persónuafsláttur sem ekki er nýttur innan skattárs fellur niður við upphaf nýs árs.
 • Einstaklingar í hjónabandi, staðfestri samvist eða í skráðri samvist geta samnýtt persónuafslátt sinn. Nánari upplýsingar eru á vef Ríkisskattstjóra (www.rsk.is).

 Skattkort voru lögð niður frá og með árinu 2016

 • Launamaður upplýsir launagreiðanda sinn um hvort nota eigi persónuafslátt við útreikning staðgreiðslu og þá hversu hátt hlutfall.
 • Auk þess þarf launamaður að tilgreina í hvaða skattþrepi reikna á skatt hans af, ef ekki í því lægsta.
 • Ef launamaður á uppsafnaðan persónuafslátt eða vill nýta persónuafslátt maka upplýsir hann launagreiðanda um það.
 •  Launamaður getur fengið upplýsingar um nýttan persónuafslátt á þjónustusíðu RSK, www.skattur.is.
 • Sé þess óskað getur launamaður sótt þangað yfirlit yfir nýttan persónuafslátt á tekjuárinu til að framvísa hjá launagreiðanda.

Sjá nánar á heimasíðu Ríkisskattstjóra

 Skattframtal

 • Allir þeir sem eru skattskyldir á Íslandi þurfa að skila inn skattframtali á hverju ári, venjulega í marsmánuði. Þar skal telja fram heildarlaun ársins á undan, ásamt skuldum og eignum.
 • Ef greitt hefur verið of mikið eða of lítið í skatt er það leiðrétt í júlí sama ár og skattframtali er skilað. Sá sem hefur greitt minna en honum er skylt þarf að greiða það sem upp á vantar og sá sem hefur greitt meira en honum ber fær mismuninn endurgreiddan.
 • Talið er fram rafrænt á netinu (www.skattur.is) og er veflykill (aðgangsorð og lykilorð að vefsíðunni) sendur á lögheimili allra skattgreiðenda, 16 ára og eldri. Sé skattframtali ekki skilað áætlar skattstjóri tekjur og álögð gjöld eru reiknuð samkvæmt því.

Á vef Ríkisskattstjóra er að finna upplýsingar um skattgreiðslur, skattlagningu og fleira á  ensku

Heimilisföng starfsstöðva um land allt

Til baka, Senda grein, Prenta greinina