Svört vinna

Stundum er fólki boðin vinna á þeim forsendum að launin séu ekki gefin upp til skatts og þannig komi viðkomandi til með að fá meiri peninga í vasann. Það er svört vinna. Slíkum tilboðum ætti ekki að taka.

Hvers vegna á að forðast svarta vinnu?

 • Það er ólöglegt að stunda vinnu sem ekki er gefin upp til skatts.

Hegningarviðurlög við svartri vinnu

 • Viðurlög við því að svíkja undan skatti eru að lágmarki sekt sem hljóðar upp á tvöfalda þá upphæð sem svikin var, en getur farið upp í tífalda upphæðina.
  Stórfelld skattsvik geta varðað allt að sex ára fangelsisvist.

Réttindatap vegna svartrar vinnu

 • Þeir sem stunda svarta vinnu fara á mis við ýmis réttindi og eru í ótryggri stöðu gagnvart vinnuveitanda sínum.
 • Af launum, og með þeim, eru greidd ýmis gjöld sem eiga að tryggja réttindi og öryggi launþegans. Sjá kafla um orlof, lífeyrissjóð, skatta og verkalýðs- og stéttarfélög.
 • Ef laun eru svikin undan skatti eru engin þessara gjalda greidd. Það þýðir meðal annars að ef launþeginn lendir slysi í vinnunni er hann ekki slysatryggður.
 • Verði sá sem stundar svarta vinnu veikur fær hann ekki greidd laun þá daga sem hann getur ekki mætt til vinnu.
 • Þegar orlofsgreiðslur eru engar fær starfsmaður í svartri vinnu ekki laun í sumarfríi sínu.
 • Sá sem stundar svarta vinnu fær ekki framlag vinnuveitanda greitt í lífeyrissjóð og ekki er líklegt að hann greiði í lífeyrissjóð yfirleitt. Af því leiðir að eftirlaun minnka sem því nemur.
 • Sá sem er í svartri vinnu greiðir ekki til verkalýðsfélags og nýtur því engra réttinda innan þeirra.
 • Sá sem er í svartri vinnu er réttindalaus gagnvart vinnuveitandanum. Ef fyrirtækið verður gjaldþrota, eða ef vinnuveitandinn getur ekki greitt laun, ákveður að reka starfsmanninn án lögmætrar ástæður, eða brotið er á honum á annan hátt getur hann ekki leitað réttar síns.


Ef launþegi hefur fengið rangar upplýsingar um hvernig atvinnuskráningu hans er háttað, kemst t.d. að því að hann er í ólöglegri vinnu, þrátt fyrir að hafa verið sagt annað, getur hann leitað upplýsinga og aðstoðar hjá stéttarfélögunum eða samtökum stéttar- og verkalýðsfélaganna eftir því sem við á en þau helstu eru ASÍ, Efling, BSRB, BHM, og VR.Til baka, Senda grein, Prenta greinina